Innlent

Ekkert þokast í rannsókn á Keilufellsárás

Ekkert hefur þokast í rannsókn lögreglu á árás á sjö karlmenn í Keilufelli á laugardag. Fjórir menn eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins en yfirheyrslur yfir þeim hafa engan árangur borið.

Árásarmennirnir réðust inn á heimili í Keilufelli síðdegis á laugardag vopnaðir kylfum, exi og öðrum bareflum. Talið er að þeir hafi verið 10 til 12 talsins. Þegar inn kom létu þeir höggin dynja á íbúunum, sjö pólskum karlmönnum, þannig að þeir hlutu töluverða áverka og beinbrot. Einn hinna slösuðu liggur enn á spítala með samfallið lunga, brotinn handlegg og brotna augntótt.

Fram hefur komið í fréttum að fórnarlömbin telji árásarmennina vera úr pólsku glæpagengi sem beiti landa sína kúgunum og ofbeldi. Fjórir pólskir karlmenn voru handteknir á laugardag grunaðir um aðild að málinu og voru þeir úrskurðaðir í þriggja vikna gæsluvarðhald. Yfirheyrslur yfir þeim hafa staðið yfir síðan þá en engan árangur borið.

Rannsóknardeild lögreglunnar hefur nú sett á fót rannsóknarhóp til að reyna að komast til botns í málinu. Þá leitar hún enn að árásarmönnunum sex til átta sem enn ganga lausir. Að sögn lögreglunnar hefur hún þó litlar vísbendingar um hvar þeir eru niðurkomnir eða hvert tilefni árásarinnar var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×