Erlent

Skógar í Kaliforníu brenna í hita- og þurrkatíð

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Slökkvilið í norðurhluta Kaliforníu berst nú við um 400 skógarelda sem kviknað hafa í mikilli hitabylgju undanfarna fjóra daga.

Nokkur heimili hafa verið rýmd í nágrenni Sacramento auk þess sem töluvert tjón hefur orðið á vínekrum í Napa-sýslu sem er þekkt fyrir léttvínsframleiðslu sína. Slökkvilið hefur átt í vök að verjast þar sem eldingar kveikja ótt og títt í skraufþurrum gróðri en á föstudag gekk mikið þrumuveður yfir Norður-Kaliforníu, þó algjörlega án rigningar.

Mike Jarvis, sem fer með stjórn slökkviliðs á svæðinu, segist vart hafa mannskap til að halda logunum í skefjum og enn brynnu eldar á nokkrum stöðum sem ekki hefði verið unnt að senda neina slökkviliðsmenn á enn sem komið væri. Hitastig í Kaliforníu hefur sums staðar farið vel upp fyrir 40 gráður og í suðurhluta ríkisins hefur verið rafmagnslaust á stórum svæðum í kjölfar þess að á þúsundum heimila hefur loftkæling verið sett á hæst styrk auk þess sem viftur hafa verið látnar ganga án afláts.

Álagið á spennistöðvar og rafdreifikerfi hefur af þessum sökum rokið svo upp úr öllu valdi að kerfin hafa hrunið. Þá hafa strendur Kaliforníu verið ákaflega þéttsetnar um helgina þar sem íbúarnir hafa sótt í svalar sjávaröldur undan miskunnarlausum hitanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×