Innlent

Ekki hægt að útskrifa sjúklinga af Kleppi

Ekki er hægt að útskrifa um fimmtíu manns af endurhæfingardeild Landspítalans að Kleppi vegna skorts á félagslegum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Sumir hafa beðið árum saman.

Forstöðufélagsráðgjafi á geðsviði Landspítalans segir vandamálið bitna á þeim árangri sem hefur náðst hefur.

Hátt í sjö hundrað manns eru á biðlista í Reykjavík eftir félagslegum íbúðum. Þar af eru um fimmtíu sjúklingar sem hafa lokið endurhæfingu á geðdeild Landspítalans að Kleppi.

Nú er svo komið að ekki er hægt að útskrifa þessa einstaklinga af spítalanum vegna húsnæðisskorts. Sveinbjörg Júlía Svavarsdóttir, forstöðufélagsráðgjafi á geðsviði Landspítalans, sagði í samtali við fréttastofu vandamálið vera gríðarlegt og viðvarandi.

Hún segir að einstaklingarnir fimmtíu hafi ekki fjárhagslega getu til að fara á almennan leigumarkað og því sé félagslegt húsnæði oft eini raunverulegi kosturinn. Þeir hafi hingað til ekki fengið neitt og sumir þurft að bíða árum saman.

Sveinbjörg segir ljóst að þetta geti tafið verulegann þann árangur sem hafi náðst í endurhæfingu þessara einstaklinga enda mikilvægt að þeir taki sem fyrst aftur þátt í samfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×