Innlent

Ræður ráðamanna á erlendri tungu liggi fyrir á íslensku

MYND/Sigurður Jökull

Samfylkingarmennirnir Mörður Árnason og Karl V. Matthíasson hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þar sem því er beint til forseta Íslands og ráðherra að ræður og ávörp sem þeir flytja á erlendri tungu liggi fyrir á íslensku samtímis eða svo skjótt sem auðið er.

Fram kemur í greinargerð með tillögunni að það hafi færst í vöxt á tímum ört vaxandi alþjóðasamskipta að ræður og ávörp séu samin og flutt á öðru máli en íslensku. Sumir þessara texta séu mikilvægir fyrir íslenskt samfélag og því eðlilegt að slíkar ræður og ávörp æðstu ráðamanna liggi fyrir á íslensku, helst við flutning eða birtingu en ella eins skjótt og auðið er.

„Með þeim hætti geta allir landsmenn kynnt sér hvað sagt er í þeirra nafni við erlenda menn, og með .opinberri' þýðingu er ekki hætta á að orð ráðamanna á erlendri grund eða við alþjóðleg tækifæri sæti rangþýðingu eða mistúlkun vegna tungumálaörðugleika. Þá má ætla að íslenskur texti greiði fyrir við vinnslu og flutning frétta á Íslandi af slíkum ræðuhöldum," segir ennm fremur í tillögunni.

Sjá Mörður og Karl fyrir sér að fela mætti þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins þessi verkefni ef þau eru vandleyst á skrifstofum forseta, ráðherra og annarra ráðamanna.

Í tillögunnier birt yfirlit um óþýddar ræður og ávörp á vefsetrum forseta Íslands og forsætisráðherra árið 2007 og utanríkisráðherra í júní til desember sama ár. Er þar um að ræða nærri 30 ræður oig ávörp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×