Innlent

Útlit fyrir að F-listi fái engan formann í nefndum og ráðum

Ólafur F. Magnússon, verðandi borgarstjóri, segir að ákvörðun Margrétar Sverrisdóttur og Guðrúnar Ásmundsdóttur um að standa með gamla meirihlutanum í borginni sé merki um að þær séu að bregðast kjósendum sínum. Hann óttast ekki að Margrét slíti meirihlutanum fái hún tækifæri til þess. Úlit er fyrir að F-listi fái ekki formann í neinum nefndum og ráðum vegna ákvæða í sveitarstjórnarlögum.

„Mér sýnist þær vera að senda félögum sínum á F-lista skilaboð um að þær kæri sig ekki um að sitja í nefndum og ráðum á vegum flokksins. Þær virðast heldur ekki styðja málefnaskrána sem er þó mjög í anda þess sem F-listinn stóð fyrir í síðustu kosningabaráttu og þar með finnst mér þær bregðast því umboði sem þeir sem kusu okkur í síðustu kosningum veittu okkur."

Ólafur segir rétt að í fljótu bragði virðst svo vera sem nýr meirihluti sé veikari en þeir tveir sem starfað hafa á þessu kjörtímabili. „En ég treysti því að lokaniðurstaðan verði þveröfug við það og við munum sitja af okkur það óveður sem nú er í aðsigi. Það verður margt gert til þess að bregða fyrir okkur fæti en ég finn fyrir miklum stuðningi frá félögum mínum á F-lista."

Ólafur segir að dagurinn í dag hafi átt að fara í að skipa í nefndir og ráð borgarinnar. „Við höfum verið að reyna að ná í Margréti og Guðrúnu í allan dag því við vildum svo sannarlega fá hana með okkur í þetta starf. En af því verður greinilega ekki."

Aðspurður segir Ólafur að útlit sé fyrir að F-listi gegni ekki formennsku í neinni nefnd eða ráði borgarinnar. „Eins og sveitarstjórnarlög eru túlkuð er það þannig að ef fyrsti varaborgarfulltrúi tekur ekki sæti í nefndum er það ekki möguleiki. Ég á eftir að kanna þetta betur," segir Ólafur.

Aðspurður hvort áhrif listans séu þá nokkuð meiri í nýjum meirihluta segir Ólafur að þvert á móti eigi F-listinn nú kjörna fulltrúa í öllum nefndum en það hafi ekki verið raunin í fyrra samstarfi. Þegar Margrét Sverrisdóttir hafi verið oddviti hafi verið gefinn afsláttur á þessu og sömuleiðis stefnumálum listans. „Við höfum meiri áhrif innan ráða og nefnda en áður og stefna okkar kemur betur fram," segir Ólafur.

Aðspurður hvort hann óttist að Margrét slíti meirihlutanum fái hún færi á því segir Ólafur að hann hafi enga trú á því að það gerist. „Þó að ég verði fjarverandi á einum fundi þá væri það mjög óeðlilegur skæruhernaður af hennar hálfu og ég hef ekki trú á því að hún leggist svo lágt," segir Ólafur F. Magnússon verðandi borgarstjóri og bætir við: „Þessi meirihluti mun halda."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×