Innlent

Landsvirkjun tekur yfir verk Arnarfells að Kárahjúkum

Frá Kárahnjúkum.
Frá Kárahnjúkum. MYND/GVA

Landsvirkjun hefur ákveðið að yfirtaka þau verk sem Arnarfell hefur haft umsjón með við Kárahnjúkavirkjun vegna þess hve illa statt Arnarfell er fjárhagslega.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsvirkjun að Arnarfell hafi að undanförnu unnið Jökulsárveitu og Hraunaveiti við Kárahnjúka. Samningsupphæð er samtals um sex milljarðar króna er um tveimur þriðju hluta verksins er þegar lokið.

Arnarfell lauk mikilvægum áföngum við að beisla Jökulsá í Fljótsdal á árinu 2007, þannig að verkið er nokkurn veginn á áætlun. Jökulsárveitu þarf að ljúka næsta sumar og Hraunaveitu sumarið 2009.

„Viðræður hafa staðið undanfarnar vikur um fjárhagslega stöðu Arnarfells og möguleika félagsins til að halda verkinu áfram. Ekki hefur tekist að semja um lausn á þeim málum.

Samkvæmt ákvæðum verksamninganna mun Landsvirkjun nú taka verkið yfir. Landsvirkjun og Arnarfell vinna að því í sameiningu að yfirtakan fari fram á farsælan hátt þannig að verkið haldi áfram án tafa og að hagsmunir starfsmanna á vinnusvæðinu séu tryggðir," segir að endingu í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×