Innlent

Verkefni færð frá LSH til annarra stofnana á suðvesturhorninu

Landspítalinn og fjögur sjúkrahús á suðvesturhorni landsins undirrituðu í dag samning um tilfærslu verkefna frá Landspítalanum til hinna stofnananna.

Fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu að stofnanirnar sem um ræði séu Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og St. Jósefsspítalinn og Sólvangur í Hafnarfirði.

Þar segir einnig að markmið samningsins sé fyrst og fremst að nýta betur fagþekkingu á öllum stofnunum, að heilbrigðisþjónusta verði í ríkari mæli veitt í heimabyggð og að auka rafræn samskipti milli stofnananna.

Bent er að að fjöldi sjúklinga komi á Landspítalann á hverjum degi vegna vegna margvíslegra bráðavandamála. Sjúklingar þurfi mislangan tíma til að ná sér eftir bráð veikindi og hafa aldraðir meiri þörf fyrir endurhæfingu að bráðameðferð lokinni en aðrir sjúklingar. Brýnt sé að hafa alltaf næg rými tiltæk fyrir bráðaþjónustu spítalans, en Landspítalinn er aðalsjúkrahús landsins og umdæmissjúkrahús höfuðborgarsvæðisins.

Í samkomulaginu felst meðal annars að bráðaþjónusta Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja verði efld til muna og þá er gert ráð fyrir að stofnunin annist sjúklinga með lögheimili á Suðurnesjum sem þurfa líknandi meðferð eða bíða eftir hjúkrunarrými á sjúkrahúsi.

Á Akranesi á að efla þjónustu á sviði öldrunarendurhæfingar, almennra lyflækninga, skurðlækninga og bæklunaraðgerða, og þá á að efla þjónustu St. Jósefsspítalans, sérstaklega á sviði meltingarsjúkdóma, skurðlækninga og á sviði sérhæfðrar öldrunarþjónustu.

Þá er einnig gert ráð fyrir að efla bráðaþjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands með því að opna nýja slysa- og bráðamóttöku og draga úr flutningum sjúklinga frá Suðurlandi til Landspítalans. Einnig er gert ráð fyrir að stofnunin annist sjúklinga með lögheimili á Suðurlandi sem þurfa á líknandi meðferð að halda eða bíða eftir hjúkrunarrými en þurfa að dvelja á sjúkrahúsi.

Þá á að samræma sumarstarfsemi allra stofnananna eins og kostur er með það að markmiði að nýta sjúkrarými þeirra sem best. Gert er ráð fyrir að áætlun um sumarstarfsemi stofnananna liggi fyrir eigi síðar en 1. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×