Innlent

Einn svartasti dagur í sögu bæjarins

Vilhjálmur Birgisson, reiðarslag fyrir bæjarfélagið.
Vilhjálmur Birgisson, reiðarslag fyrir bæjarfélagið.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir fréttir af uppsögnum hjá HB Granda á Akranesi vera reiðarslag fyrir bæjarfélagið. „Þetta er einn svartasti dagur í sögu bæjarfélagsins," segir Vilhjálmur og minnir á að um sé að ræða fyrirtæki sem verið hefur í bænum í rúmlega heila öld.

„Þessir menn tilkynntu um mikil áform fyrir áramót þegar til stóð að flytja nær alla starfsemina hingað á Skagann," segir hann. „Síðan gekk það ekki eftir og þetta kemur í dag. Þetta er því eins og tvöfallt högg frman í andlitið á fólki hér í bæ.

Vihjálmur segir að allt frá því að Haraldur Böðvarsson sameinaðist Granda árið 2004 hefur verulega hallað á ógæfuhliðina á Akranesi. „Mér reiknast svo til að um 144 störf hafi tapast hér í bænum á þessum tíma og þetta er nánast náðarhöggið," segir Vilhjálmur sem á afskaplega erfitt með að sætta sig við þessa niðurstöðu að eigin sögn. „Ég trúi ekki öðru en að landsmenn fari nú að rísa upp á afturlappirnar gagnvart þessu fiskveiðikerfi sem er að sjálfsögðu orsakavaldurinn í þessum málum öllum, þetta er gjörsamlega óþolandi."

Vihjálmur segir Harald Böðvarsson hafa mikið tilffinningalegt gildi fyrir fólk á Akranesi. „Fólkið er einfaldlega þrumu lostið. Það er varla til sú fjölskylda hér í bænum sem ekki hefur tengst þessu fyrirtæki á einn eða annan hátt. Þessi störf sem hverfa núna eru að lang mestu leyti kvennastörf og ég er hræddur um að það verði erfitt fyrir mikið af þeim konum að ráða sig í starf á ný. En við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hjálpa þessu fólki," segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×