Erlent

Þjóðernissinni leiðir forsetakosningar í Serbíu

Tomislav Nikolic róttækur þjóðernissinni er sigurvegari fyrstu umferðar forsetakosninga í Serbíu. Samkvæmt könnun mun þó koma til úrslitaumferðar þar sem kosið verður milli þeirra tveggja sem fá flest atkvæði.

Nikolic sem hallast að Rússlandi virðist hafa unnið með 39,6 prósentum atkvæða á meðan Boris Tadic forseti sem vill meira samstarf við Evrópusambandið er með 35,5 prósent.

Nikolic segir að Róttæki flokkurinn yrði ekki stöðvaður, en Tadic segist viss um sigur í úrslitaumferðinni.

Kosningarnar eru prófsteinn á framtíð Serbíu þar sem spenna er nú mikil vegna Kosovohéraðs.

Útgönguspár höfðu bent til að Nikolic bæri sigurorð af Boris Tadic forseta. Tadic vill stefna að inngöngu Serba bæði í Evrópusambandið og NATO, en Nikolic vill að Serbar fylgi Rússum að málum.

Rússar hafa með ráðum og dáð stutt Serba í að standa gegn áformum um að Kosovo verði formlega skilið frá Serbíu. Tadic er einnig andsnúinn sjálfstæði Kosovo.

Stjórnmálaskýrendur telja að sigur Nikolic gæti orðið til þess að Serbía snúi aftur á brjaut þjóðerniseinangrunarstefnu í þeim anda sem var við lýði í stjórnartíð Slobodans Milosevic heitins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×