Erlent

Oprah sökuð um að taka kynþátt fram yfir kyn

Barack Obama er hér á kosningafundi með konu sinni Michelle og Opruh.
Barack Obama er hér á kosningafundi með konu sinni Michelle og Opruh.
Harðar deilur hafa spunnist á heimasíðu bandarísku spjallþáttadrottningarinnar Opruh Winfrey vegna stuðnings hennar við Barack Obama í forvali demókrata fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum. Þykir mörgum sem Oprah hafi svikið kynsystur sína, Hillary Clinton, sem fyrst kvenna eigi raunverulegan möguleika á að verða forseti Bandaríkjanna.

 

Oprah Winfrey kom fram á baráttufundum með Obama í Iowa, New Hamshire og Suður-Karólínu fyrir jól og eru margir á því að það hafi skipt sköpum fyrir gengi Obama í forkosningunum. Hins vegar hefur hún ekki látið sjá sig á kosningafundum að undanförnu, meðal annars eftir að reiðialda gekk yfir spjallsvæði á heimasíðu spjallþáttadrottningarinnar, oprah.com.

 

Eftir því sem fram kemur á vef Times fer það fyrir brjóstið á konum, sem eru í meirihluta áhorfenda að þáttum Opruh, að hún styðji frekar Obama, sem er blökkumaður eins og Oprah, en kynsystur sína Clinton. Þá ganga sumar svo langt að saka Opruh um rasisma með því að ganga fram hjá mjög hæfri konu en aðrar telja að spjallþáttadrottningin hafi svikið sig.

 

Slík er taugaveiklunin í forsetakosningunum að samsæriskenningasmiðir segja að um skipulagða árás sé að ræða, þá úr röðum Clinton, svo grófar og haturfullar athugasemdir geti ekki komið frá aðdáendum Opruh.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×