Innlent

Spurning um pólitískan vilja

Táknrænn fundur. Forysta Samfylkingarinnar kynnti tillögur sínar um biðlistavanda með táknrænum hætti í gær með því að halda fundinn utan dyra og vekja þannig athygli á að færri komist að í velferðarkerfinu en vilja.
Táknrænn fundur. Forysta Samfylkingarinnar kynnti tillögur sínar um biðlistavanda með táknrænum hætti í gær með því að halda fundinn utan dyra og vekja þannig athygli á að færri komist að í velferðarkerfinu en vilja.

Samfylkingin kynnti í gær tillögur sína um biðlistavanda í þjónustu við börn og aldraða. Fundurinn var haldinn fyrir utan aðalinngang Landspítala - háskólasjúkrahúss til að sýna með táknrænum hætti að færri komist í skjól spítalans en vilja.

Forysta flokksins kynnti tillögurnar og sagði að biðlistarnir væru ekkert annað en birtingarmynd yfir vanrækslu og skort á samfélagslegri ábyrgð hjá núverandi ríkisstjórn. Henni hefði láðst að nýta góðæri undanfarinna ára til að jafna aðstæður allra hópa samfélagsins.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að leiðrétting í þessum málum sé vel gerleg. „Þetta er bara spurning um pólitískan vilja, tíma og fjármagn. Það sem við horfum fyrst og fremst til í þessum málum eru biðlistar sem lúta að brýnni þjónustu við aldraða og börn með geðrasakanir og þroskafrávik. Við teljum það algerlega óviðunandi að fólk sem þarf strax á úrræðum að halda sé á biðlistum.“

Ingibjörg telur að hægt sé að eyða biðlistunum á skömmum tíma. „Það þarf bara að ganga í það verk, setja í það fjármuni og semja við stofnanirnar sem hafa með þetta að gera sem og sérfræðinga sem eru starfandi utan þeirra. Það er hægt að eyða þessum listum á nokkrum mánuðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×