Enski boltinn

Daily Mail segir að Eggert sé hættur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eggert Magnússon með eiginkonu sinni á Upton Park.
Eggert Magnússon með eiginkonu sinni á Upton Park. Nordic Photos / Getty Images

Breska götublaðið Daily Mail heldur því fram að Eggert Magnússon sé nú þegar hættur sem stjórnarformaður enska úrvalsdeildarfélagsins West Ham.

Í frétt blaðsins á vefsíðu þess segir að Björgólfur Guðmundsson hafi keypt fimm prósenta hlut Eggerts í West Ham og að hann sé nú eini eigandi hlutabréfa í félaginu.

Þá segir einnig að stuðningsmenn West Ham munu sjá eftir Eggerti sem hélt félaginu saman í erfiðum raunum þess í kringum botnbaráttu liðsins á síðasta tímabili og Tevez-málsins svokallaða sem fylgdi í kjölfarið.

Óljóst er hvað Eggert tekur sér fyrir hendur nú en heimildir Vísis herma að hann muni snúa sér að fasteignaviðskiptum sínum í Bandaríkjunum í meira mæli.

Þessar fregnir hafa þó ekki fengist staðfestar úr herbúðum West Ham. Ekki hefur náðst í Eggert sjálfan né heldur Ásgeir Friðgeirsson, talsmann Björgólfs Guðmundssonar.

Vísir náði tali af Guðmundi Oddssyni, stjórnarmanni í West Ham, en hann vísaði á Ásgeir Friðgeirsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×