Erlent

Dómi í hryðjuverkamáli í Danmörku áfrýjað

MYND/AP

Ríkissaksóknari í Danmörku hefur ákveðið að áfrýja til Hæstaréttar dómi yfir þremur mönnum sem dæmdir voru fyrir aðild sína að svokölluðu Vollsmose-hryðjuverkamáli.

Tveir mannanna fengu í þarsíðustu viku ellefu ára fangelsisdóm og einn fjögurra ára dóm fyrir að leggja á ráðin um hryðjuverkaárásir í Evrópu. Öðrum þeirra sem hlaut ellefu ára dóm verður sömuleiðis vísað úr landi en hann er írakskur ríkisborgari.

Ríkissaksóknara þótti refsingin yfir mönnunum ekki nógu þung og ákvað því að áfrýja dómnum eftir því sem segir á vef Jótlandspóstsins. Vollsmose-málið kom upp í byrjun september í fyrra en þá voru níu menn handteknir í Vollsmose-hverfinu í Óðinsvéum vegna gruns um að þeir væru að skipuleggja hryðjuverk. Lögregla lagði meðal annars hald á efni til sprengjugerðar í húsleit tengdri málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×