Erlent

Þrír sakfelldir fyrir að leggja á ráðin um hryðjuverk

MYND/AP

Þrír menn voru í Eystri landsrétti í dag sakfelldir fyrir að leggja á ráðin um hryðjuverk í svokölluðu Vollsmose-máli í Danmörku.

Alls voru fjórir menn ákærðir í málinu og var einn sýknaður en honum hafði verið sleppt á meðan á réttarhöldunum stóð. Mennirnir þrír eru allir af erlendum uppruna en tveir þeirra eru með danskan ríkisborgararétt. Sá þriðji, sem er Íraki, á hugsanlega yfir höfði sér að verða vísað úr landi vegna brotanna.

Mennirnir eru sagðir tilheyra hryðjuverkahópi sem lagði á ráðin um sprengjuárásir og höfðu þeir viðað að sér efni til sprengjugerðar. Ekki liggur fyrir hvar þeir hafi ætlað að láta til skarar skríða.

Alls voru níu manns handteknir í tengslum við málið þegar það kom upp í september í fyrra, en þeir bjuggu allir í Vollsmose, úthverfi Óðinsvéa. Það ræðst síðar í dag hversu þunga dóma þremenningarnir, sem sakfelldir voru í dag, fá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×