Enski boltinn

Rafa Benitez útilokar ekki enska landsliðið

NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool, útilokar ekki að hann sé inni í myndinni sem næsti þjálfari enska landsliðsins eftir meintar deilur við eigendur Liverpool.

Breska ríkissjónvarpið greindi frá því í morgun að Benitez hefði mætt seint á blaðamannafund eftir fund með þeim George Gillett og Tom Hicks og lýsti viku sinni sem "ekki þeirri bestu."

"Kannski gæti ég tekið við af Steve McClaren ef ég læri betri ensku," sagði Spánverjinn. "Mér er alvara. Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér," sagði Benitez.

Benitez var spurður spjörunum úr á fundinum í tengslum við innkaupastefnu Liverpool og væntingar til liðsins í deild og Evrópu. Hann svaraði flestum spurningunum með orðunum "Ég er bara að einbeita mér að því að þjálfa lið mitt."

Benitez er sagður vilja versla leikmenn í janúar en forráðamenn félagsins hafa gefið það út að þeir vilji halda að sér höndum í bili eftir að hafa eytt vel í sumar.

Næsti fundur Benitez með stjórnarmönnum félagsins er ekki fyrr en um miðjan desember og leikmannakaup verða ekki uppi á borðinu fyrr en þá að þeirra sögn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×