Erlent

Danski ráðherrakapallinn liggur fyrir

MYND/AP

Karen Jespersen, fyrrverandi þingmaður Jafnaðarmannaflokksins og nú þingmaður Venstre, verður ráðherra velferðarmála í nýrri ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sem kynnt var í dag.

Fram kemur í dönskum miðlum að velferðararáðuneytið sé nýtt ráðuneyti og tekur við verkefnum félagsmálaráðuneytis og ráðuneytis fjölskyldu- og neytendamála ásamt hluta af verkefnum innanríkisráðuneytisins.

Per Stig Möller verður áfram utanríkisráðherra og Sören Gade áfram varnarmálaráðherra en Lars Lökke Rasmussen, fyrrverandi innanríkis- og heilbrigðisráðherra, verður fjármálaráðherra. Þykir það benda til þess að hann taki við sem leiðtogi Venstre af Anders Fogh Rasmussen sá síðarnefndi hættir afskiptum af stjórnmálum.

Alls eru nítján ráðherrar í nýju dönsku ríkisstjórninni, tólf karlar og sjö konur, en hún er skipuð tólf fulltrúum Venstre og sjö fulltrúum Íhaldsflokksins. Þessir ríkisstjórnarflokkar njóta svo stuðnings Danska þjóðarflokksins og Nýja bandalagsins á þingi en Nýja bandalagið kom inn í meirihlutasamstarfið eftir þingkosningar í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×