Innlent

Næturlendingum fjölgar um 80 prósent á fimm árum

Nærri áttatíuprósent fleiri flugvélar lentu eða tóku á loft á Reykjavíkurflugvelli að næturlagi í fyrra en árið 2001.

Formaður samgöngunefndar Alþingis vill banna næturflug einkaþotna á Reykjavíkurflugvelli og hefur efasemdir um að hugmyndir samgönguráðherra um að hækka lendingargjöldin, sem nú eru að meðaltali tíu þúsund krónur á einkaþotu, dygðu til að draga úr flugumferð á næturna í Vatnsmýrinni.

Fréttastofa hefur fengið tölur frá Flugstoðum um næturhreyfingar sjö ár aftur í tímann. Árið 2000 sker sig úr en þá voru 553 vélar sem lentu eða tóku á loft að næturlagi. Skýringin á þessum fjölda mun vera, samkvæmt upplýsingum frá Flugstoðum, að einmitt þetta ár hafi borgarstjóri og samgönguráðherra gert með sér samkomulag um að draga úr næturumferð.

Það skilar sér strax næsta ár þegar næturumferðin dregst saman um meira en helming - lendingar og flugtök eru aðeins 268. Þeim fjölgar síðan ár frá ári, og eru árið 2003 komnar upp í 331 skipti og á síðasta ári lentu eða tóku á loft alls 477 vélar að næturlagi þegar flugumferð á vera eins lítil og kostur er. Flugumferðin í Vatnsmýrinni hefur því aukist um 78 prósent á þessum sex árum.

Sjúkraflug var á þessu árabili 8-19 prósent af næturumferðinni. Einhver hluti skýrist af seinkunum áætlunarvéla og sömuleiðis véla Landhelgisgæslunnar. Hins vegar er drjúgur hluti tilkominn vegna aukinnar flugumferðar einkaþotna. Næturflug einkaþotna á heima á Keflavíkurflugvelli og hvergi annars staðar, sagði formaður samgöngunefndar í gær. Eigendur einkaþotna og flugvallaryfirvöld virðast ekki líta svo á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×