Innlent

Fjölskyldan í sjokki eftir vopnað rán

Þórður Björnsson kaupmaður
Þórður Björnsson kaupmaður

"Vonandi lendi ég aldrei aftur í svona," segir Þórður Björnsson, kaupmaður í Sunnubúð, en þrír vopnaðir og grímuklæddir menn rændu verslun hans í morgun.

Eins og áður hefur verið greint frá voru mennirnir vopnaðir kylfu og exi. Að sögn Þórðar króuðu tveir þeirra hann af á meðan sá þriðji fór í kassann og hirti þaðan alla peninga, alls um 80 þúsund krónur.

Enginn viðskiptavinur var í versluninni þegar ránið átti sér stað.

Þegar lögregla var búin að afla sönnunargagna og taka skýrslu af Þórði opnaði hann kjörbúðina sína aftur og hélt áfram að selja íbúum í Hlíðunum mjólk, brauð og fleira.

"Ég verði leystur af á eftir, þá kíki ég upp á slysó," svarar Þórður þegar hann er spurður hvort hann þurfi ekki áfallahjálp eftir atburði morgunsins.

"Það verður að standa vaktina," bætir hann við.

Þórður segir að mesta sjokkið eigi líklega eftir að setjast í hann og viðurkennir að fjöldkyldu sinni hafi brugðið verulega við að heyra af ráninu.

Hann lýsir ræningjunum á þann veg að þeir hafi verið karlar, á aldrinum 18 - 23 ára, líklega undir áhrifum fíkniefna.

Lögregla leitar þeirra nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×