Fótbolti

Coleman áfram hjá Sociedad

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chris Coleman verður áfram á Spáni.
Chris Coleman verður áfram á Spáni. Nordic Photos / Getty Images

Chris Coleman ætlar að halda áfram starfi sínu sem knattspyrnustjóri spænska 2. deildarliðsins Real Sociedad þrátt fyrir að stjórn liðsins sagði af sér í vikunni.

Coleman hefur áður sagt að hann myndi hætta ef stjórnin sem réði hann til starfa myndi segja af sér. Nú er ljóst að hann verður áfram hjá liðinu, að minnsta kosti þar til kosið verður í nýjan stjórn þann 3. janúar næstkomandi.

„Það er mjög mikilvægt að við höldum áfram að vinna það starf sem við höfum verið að gera að undanförnu," sagði Coleman við As á Spáni í dag.

„Við vitum ekki hvort það sé von á breytingum eða ekki en við verðum að einbeita okkur að þeim sex leikjum sem eru framundan þar til það kemur í ljós."

Coleman var áður stjóri Fulham í fjögur ár og tók við liðinu í júlí síðastliðnum.

Hópur kínverskra fjárfesta mun hafa áhuga á að kaupa 35 prósenta hlut í félaginu sem féll úr úrvalsdeildinni síðastliðið vor eftir 40 ára veru þar. Liðið er nú í þrettánda sæti 2. deildarinnar eftir tólf leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×