Innlent

Ökuferðin endaði inni á gólfi bensínstöðvar

Bíll með tveimur mönnum um borð, lenti á bensíndælu, snarsnerist við það og hafnaði hálfur inn á gólfi í verslun bensínstöðvarinnar á mótum Sæbrautar, Kleppsvegar og Langholtsvegar upp úr klukkan eitt í nótt.

Rétt áður hafði hann ekið niður umferðarskilti. Mennirnir sluppu lítið meiddir, en slökkvilið var kvatt á vettvang til öryggis, vegna eldhættu. Ökumaður er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna og að hafa verið á mikilli ferð.

Lögregla lokaði vettvanginn af en þá var bíl ekið í gegn um lokunina og á mikilli ferð til vesturs. Lögreglumönnum á nokkrum bílum tókst að króa hann af á Dalbraut og reyndist hann líka undir áhrifum fíkniefna.

Sama átti við um ökumanninn, sem velti bíl sínum um svipað leyti við Gufunesveg, eftir vítaverðan akstur, að sögn vitna, og fjórði ökumaðurinn, sem stöðvaður var á Borgarvegi , hafði líka neytt fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×