Fótbolti

Botninum náð - Ísland steinlá í Liechtenstein 3-0

Mynd/Daniel

Íslenska landsliðið í knattspyrnu var niðurlægt í Liechtenstein í undankeppni EM í kvöld og tapaði 3-0. Vísir fylgdist með gangi mála í beinni textalýsingu.

19:48 - LEIK LOKIÐ. Ísland er niðurlægt í Liectenstein og tapar 3-0. Ein versta útreið sem íslenskt landslið hefur fengið í sögunni.

"Maður bíður bara eftir því að þessari pínu fari að ljúka," segir Ólafur Kristjánsson. Tveimur mínútum bætt við leikinn.

19:43 - Eiður með skot yfir úr aukaspyrnu á hættulegum stað. Vonleysið skín úr augum íslenska liðsins.

19:40 - Ásgeir Ásgeirsson kemur inn fyrir Brynjar Björn Gunnarsson. Þessi skipting kemur fullseint hjá íslenska liðinu. "Svartur dagur í íslenskri knattspyrnusögu," segir Guðmundur Benediktsson í lýsingu sinni á Sýn og lýgur engu.

"Það er ljóst á þessu fallega kvöldi í Liechtenstein að þeir eru með betra knattspyrnulið en Íslendingar í dag," sagði Ólafur Kristjánsson.

19:36 - MARK!!! 3-0 fyrir Liechtenstein. Thomas Beck skorar með glæsilegu skoti og innsiglar sigur heimamanna.

19:35 - MARK! Liechtenstein er komið í 2-0!!! Thomas Beck skorar ótrúlegt mark með því að vippa boltanum yfir Árna Gaut af löngu færi og kemur heimamönnum í 2-0 þegar 10 mínútur eru eftir af leiknum.

"Það sem er áhyggjuefni í þessu er að við höfum aldrei náð að setja almennilega pressu á Liechtenstein í þessum leik og aldrei náð að koma þeim í veruleg vandræði," segir Ólafur Kristjánsson, sérfræðingur Sýnar og Vísis.

19:27 - Gunnar Heiðar fer af velli og í hans stað kemur Helgi Sigurðsson. Willum getur tekið gleði sína, en nær Helgi að setja mark sinn á leikinn þegar 20 mínútur eru til stefnu?

19:26 - Eiður Smári slapp í gegn eftir góða sendingu frá Arnari Viðarssyni, en náði ekki að komast framhjá markverðinum. Gott færi farið forgörðum.

19:21 - Dauðafæri. Emil Hallfreðsson tók góða aukaspyrnu frá hægri kanti og skrúfaði boltann inn á teiginn. Ármann Smári náði skoti úr þröngu færi en beint á markvörðinn. Eitt hættulegasta færi íslenska liðsins til þessa.

19:17 - Ármann Smári lætur til sín taka. Brynjar Björn með fínt hlaup upp hægri kantinn og nær fyrirgjöfinni. Ármann átti ágætan skalla að marki en beint á markvörðinn. Smá líf í íslenska liðinu.

19:12 - Ármann Smári Björnsson kemur inn á í stað Jóhannesar Karls Guðjónssonar. Ármann fer beint á toppinn og Eiður Smári fellur þá meira niður á miðjuna. Eyjólfur blæs til sóknar.

19:10 - Aukaspyrna á stórhættulegum stað sem Liechtenstein fær. Ragnar Sigurðsson gaf aukaspyrnu rétt fyrr framan teiginn en skotið fór hátt yfir.

Skömmu áður skapaðist hætta fyrir framan mark heimamanna eftir aukaspyrnu frá Emil Hallfreðssyni, en ekkert varð úr því.

19:06 - Enn ein glórulaus sendingin frá íslenska liðinu hafnar í fótum mótherjans. Ólafur Kristjánsson, sérfræðingur Sýnar, dæsir. "Maður er bara orðlaus," segir Kristján. Hann er ekki einn um þá skoðun eins og stendur.

19:01 - Seinni hálfleikur hefst á þrumuskoti frá Jóhannesi Karli úr aukaspyrnu, en það fer yfir markið. Engar breytingar hafa verið gerðar á íslenska liðinu í hálfleiknum.

Danir hafa yfir 2-0 gegn Lettum í hálfleik og Svíar hafa 1-0 yfir gegn Norður-Írum eftir 30 mínútna leik.

"Ég sé nú bara enga ljósa punkta í þessu og er bara í áfalli. Ég er sérstaklega óánægður með færsluna á liðinu," segir Willum Þórsson, þjálfari Vals á Sýn.

"Það er lítið sjálfstraust í liðinu og ekki eining um það hvernig á að gera hlutina. Það er engin afsökun - en það getur vel verið að síðasti leikur sitji í liðinu. Ég myndi setja Helga Sigurðsson þarna inn," sagði Willum.

Hann er kannski ekki hlutlaus í málinu, en ljóst er að íslenska liðið þarf að gera breytingar sem fyrst ef ekki á illa að fara.

18:47 - Hálfleikur. Liechtenstein hefur yfir 1-0 í hálfleik og fátt sem bendir til þess að íslenska liðið ætli að fara frá dvergríkinu með sigur í farteskinu. Eyjólfur þjálfari þarf greinilega að fara vel yfir málin með sínum mönnum í hálfleiknum og mikið má vera ef hann gerir ekki breytingar á liðinu.

18:42 - Frick með gott hlaup hjá Liechtenstein og Árni Gautur þarf að taka á honum stóra sínum í markinu. Skömmu síðar fá heimamenn annað hálffæri. Varnarleikur íslenska liðsins ekki sannfærandi núna og allt skipulag er að virka mun betur í liði Liechtenstein.

18:39 - Kristján Sigurðsson með lipra takta í sókninni. Kristján fékk sendingu inn fyrir á hægri kantinum, en náði ekki til boltans innan um tvo varnarmenn Liechtenstein. Kristján slúttaði með stæl og jarðaði þá báða með einni og sömu tæklingunni. Tilþrif leiksins hjá íslenska liðinu til þessa, en því miður lagar það ekki stöðuna.

18:37 - Gunnar Heiðar í færi. Gunnar Heiðar Þorvaldsson fékk sendingu inn fyrir vörnina frá Brynjari Birni en markvörðurinn sá við honum í þröngu færi. Meiri kraftur í íslenska liðinu eftir markið, en enn vantar nokkuð uppá hjá liðinu.

Skömmu síðar á varnarmaðurinn Ragnar Sigurðsson þrumuskot að marki heimamanna en markvörðurinn sá við honum.

18:30 - Eiður í dauðafæri en markvörðurinn ver frá honum. Eiður komst í gott færi eftir góðan undirbúining frá Gunnari Heiðari, en markvörðurinn varði vel frá honum úr þröngu færi.

18:28 - MARK! Martröðin heldur áfram! Liechtenstein er komið yfir. Löng sending upp vinstri kantinn hjá heimamönnum. Boltinn fór inn fyrir Kristján og fyrirgjöfin frá Burgmeier hafnaði hjá Mario Frick í miðjum vítateig - sem renndi boltanum framhjá Árna Gauti.

18:27 - Ívar Ingimarsson á skot langt yfir með vinstri eftir klafs í teig heimamanna. Skotið ógnaði markverðinum aldrei og fór hátt yfir. Íslenska liðið beitir enn löngum sendingum, sem til þessa hafa skilað litlu.

18:24 - Leikurinn er enn frekar rólegur. Íslenska liðinu gengur mjög illa að byggja upp spil og er ekki að nýta sér að vera með tvo menn á miðri miðjunni. Langar sendingar inn fyrir vörnina á Eið Smára og Gunnar Heiðar eru ekki að skila árangri. Stuðningsmenn heimaliðsins eru aðeins að taka við sér í stúkunni.

18:20 - Rafael Rohrer, sóknarmaður Liechtenstein, vill fá vítaspyrnu eftir að Ragnar Sigurðsson togar í treyju hans innan teigs. Rohrer hefði kannski orðið að ósk sinni ef hann hefði ekki ýkt snertinguna um of. Hann kastaði sér öskrandi í völlinn og dómarinn dæmdi ekkert. Góður dómur.

18:17 - Íslenska liðið fékk fyrstu hornspyrnuna í leiknum eftir mikla baráttu frá Gunnari Heiðari við endalínuna. Jóhannes Karl tók spyrnuna en hún var slök og ekkert kom úr henni.

18:15 - Hinn íslenskættaði markahrókur Jon Dahl Tomasson hefur komið Dönum yfir gegn Lettum í hinum leiknum í F-riðlinum. Kemur ekki sérstaklega á óvart.

18:11 - Íslenska liðið er aðeins að ná takti eftir smá taugaveiklun í byrjun. Eiður Smári Guðjohnsen og Emil Hallfreðsson láta finna fyrir sér í sókninni en ekkert færi hefur enn litið dagsins ljós. Stemmingin á vellinum er frekar róleg og ekki ósvipuð og á vorleik í Landsbankadeildinni - enda ekki pláss fyrir marga áhorfendur.

18:05 - Úff! Fyrsta færi heimamanna lítur dagsins ljós eftir aðeins fjórar mínútur. Þrumuskot frá einum miðjumanna Liechtenstein, en Árni Gautur þarf að taka á honum stóra sínum og ver boltann neðst í hægra horninu.

18:00 - Leikurinn er hafinn. Dómari er Christoforos Zografos frá Grikklandi. Ísland leikur í hvítum búningum í kvöld.

17:56 - Íslenski þjóðsöngurinn hljómar á vellinum. Nokkrir íslenskir áhorfendur í stúkunni taka vel undir, en hljómtækjum og hljómgrunni á vellinum verður seint ruglað saman við Scala-óperuna. Góð viðleitni engu að síður og stemmingin fín í Liechtenstein.

17:53 - Annan landsleikinn í röð þarf Gunnar Heiðar Þorvaldsson að gefa eftir treyjunúmer sitt. Gunnar Heiðar sem spilaði í númer 9 í fjarveru Eiðs Smára Guðjohnsen gegn Kanada, Spáni og Norður-Írlandi lék númer 7 í leiknum á móti Lettum á laugardaginn þar sem Eiður Smári kom aftur inn í íslenska liðið.

Það er hinsvegar númerið hans Hermanns Hreiðarssonar sem tók þá út leikbann. Hermann er kominn aftur inn í íslenska liðið og spilar númer 7 gegn Liechtenstein í Vaduz í kvöld.

Eiður Smári heldur að sjálfsögðu áfram níunni og því verður Gunnar Heiðar númer þrjú í kvöld þrátt fyrir að leik í fremstu víglínu. Það voru Hjálmar Jónsson (gegn Lettlandi) og Kári Árnason (gegn Spáni og Norður-Írlandi) sem voru í treyju númer þrjú í síðustu leikjum en hvorugur þeirra er í hópnum í kvöld.

17:44 - Nú eru um 15 mínútur í að flautað verði til leiks. Veðrið er mjög gott ytra og það ætti ekki að skemma fyrir íslenska liðinu í kvöld. Hitinn var rúmar 20 gráður fyrr í dag en hefur lækkað eitthvað með kvöldinu. Það verða Guðmundur Benediktsson og Ólafur Kristjánsson sem lýsa leiknum beint að utan á sjónvarpsstöðinni Sýn og tóku þeir sig báðir vel út á vellinum. Báðir eru sammála um að íslenska liðið "eigi" að vinna leikinn, en það er ekki alltaf nóg í fótboltanum.

Hermann Hreiðarsson kemur inn í sína stöðu í vinstri bakverðinum en hann tók út bann í síðasta leik, gegn Lettum.

Arnar Þór Viðarsson kemur einnig inn í liðið en hann kom ekkert við sögu í síðasta leik.

Þá dettur Grétar Rafn Steinsson úr hópnum en það er vegna meiðsla.

Eyjólfur Sverrisson stillir liðinu upp samkvæmt 4-3-3 leikkerfinu:

Markvörður: Árni Gautur Arason

Hægri bakvörður: Kristján Örn Sigurðsson

Miðverðir: Ívar Ingimarsson og Ragnar Sigurðsson

Vinstri bakvörður: Hermann Hreiðarsson

Varnartengiliður: Arnar Þór Viðarsson

Miðvallarleikmenn: Jóhannes Karl Guðjónsson og Brynjar Björn Gunnarsson

Hægri sóknarmaður: Gunnar Heiðar Þorvaldsson

Fremsti sóknarmaður: Eiður Smári Guðjohnsen, fyrirliði

Vinstri sóknarmaður: Emil Hallfreðsson

Varamenn:

Daði Lárusson

Helgi Sigurðsson

Indriði Sigurðsson

Ólafur Örn Bjarnason

Ólafur Ingi Skúlason

Ármann Smári Björnsson

Ásgeir Gunnar Ásgeirsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×