Erlent

Fannst á lífi eftir átta daga í bílflaki

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Lögreglumenn taka mál á slysstað þar sem Honda Element bíll konunnar fannst.
Lögreglumenn taka mál á slysstað þar sem Honda Element bíll konunnar fannst. MYND/AP

Kona sem saknað hafði verið í átta daga fannst á lífi í bíl á botni gils í Bandaríkjunum - á sama tíma og eiginmaður hennar var að taka lygapróf vegna hvarfsins. Lögregla fann bíl konunnar á botni gils við hraðbraut nálægt Seattle í Washington. Tanya Rider var á leið heim úr vinnu þegar hún fór út af veginum og hrapaði sjö metra niður gilið.

Þegar lögreglumenn fylgdu leiðinni sem hún keyrði vanalega heim tóku þeir eftir skemmdum runna. Þeir höfðu kannað gsm merki úr síma konunnar og sáu loks bílinn á milli runna í botni gilsins.

Tanya svaraði kalli lögreglumannanna en var afar máttfarin. Björgunarmenn þurftu að klippa þak bílsins af til að ná henni út.

Á sama tíma var Tom eiginmaður hennar að setjast við lygamæli á lögreglustöð í Maple Valley svo lögregla gæti útilokað að hann ætti þátt í hvarfi hennar.

Ástand konunnar er alvarlegt, hún er með nýrnabilun og legusár eftir að liggja kyrr í bílnum í rúma viku. Tom eiginmaður hennar segir hana berjast fyrir lífi sínu á sjúkrahúsinu.

Tom hafði boðið rúma eina og hálfa milljón í verðlaunafé til þeirra sem gætu gefið upplýsingar um hvar kona hans væri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×