Fótbolti

Eyjólfur: Þurfum að vera tilbúnir fyrir HM 2010

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eyjólfur Sverrisson á blaðamannafundi KSÍ fyrri landsleikinn gegn Norður-Írum fyrr í mánuðinum.
Eyjólfur Sverrisson á blaðamannafundi KSÍ fyrri landsleikinn gegn Norður-Írum fyrr í mánuðinum. Mynd/Anton

Eyjólfur Sverrisson segir í viðtali við heimasíðu FIFA að hann sé þegar byrjaður að hugsa um næstu undankeppni stórmóts í knattspyrnu.

„Við þurfum að vera tilbúnir þegar undankeppni HM 2010 hefst. Íslendingar eru mjög stoltir einstaklingar og það mun alltaf verða okkar markmið að komast í úrslitakeppni stórmóts í knattspyrnu. Við þurfum að trúa á þetta og svo bíða og sjá hvað það mun taka okkur langan tíma að ná þessu markmiði."

Þetta segir Eyjólfur í viðtali sem birtist í dag á heimasíðu Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.

Enn fremur segist hann vilja koma stöðugleika á íslenska landsliðið.

„Íslenska landsliðið hefur gengið í gegnum krísu undanfarin fjögur til fimm ár og erum við nú að koma okkur upp úr henni. Það eru margir nýir leikmenn sem eru komnir í landsliðið og nú erum við að reyna að koma stöðugleika á liðið og bæta frammistöðu þess. Vonandi verður það til þess að liðið nær betri úrslitum og fleiri stigum."

Í greininni er farið í gegnum gengi íslenska landsliðsins í undankeppni EM 2008 sem byrjaði með sigri í Norður-Írlandi. En þá tók við tími þar sem ekkert gekk þar til í síðustu leikjum liðsins, gegn Spáni og Norður-Írum hér heima.

Í kjölfarið hefur landsliðið stokkið upp um 37 sæti á heimslistanum. Það er nú í 80. sæti en var áður í því 117. Það er versti árangur liðsins frá upphafi.

Samningur Eyjólfs við KSÍ rennur út nú við lok þessarar undankeppni og hafa forráðamenn KSÍ gefið út að mál landsliðsþjálfara verði skoðuð þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×