Enski boltinn

Arsenal rúllaði upp Derby

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emmanuel Adebayor og Theo Walcott fagna marki Cesc Fabregas.
Emmanuel Adebayor og Theo Walcott fagna marki Cesc Fabregas. Nordic Photos / Getty Images

Arsenal styrkti stöðu sína á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í dag með 5-0 stórsigri á Derby.

Á sama tíma gerði Liverpool markalaust jafntefli við Birmingham á Anfield.

Emmanuel Adebyor gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu fyrir Arsenal í dag. Abou Diaby kom liðinu á bragðið á tíundu mínútu en Cesc Fabregas skoraði einnig fyrir Arsenal í dag.

Arsenal er nú með fjögurra stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið hefur skorað fimmtán mörk en fengið aðeins fjögur á sig.  

Liam Miller skoraði jöfnunarmark Sunderland á lokamínútum leiksins gegn Middlesbrough á útivelli í dag.

Grant Leadbitter hafði komið Sunderland yfir á annarri mínútu en þeir Julio Arca og Stewart Downing komu heimamönnum yfir. Miller skoraði svo jöfnunarmarkið á 89. mínútu.

Þá vann Reading langþráðan sigur í dag er liðið vann Wigan, 2-1, á heimavelli.

James Harper skoraði sigurmark leiksins á 90. mínútu en Dave Kitson kom Reading yfir í fyrri hálfleik. Marcus Bent jafnaði metin á 50. mínútu.

Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson spiluðu allan leikinn fyrir Reading.

Fulham og Manchester City mætast síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×