Íslenski boltinn

Landsliðið ekki verið ofar í þrjú ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr sigurleik Íslands á Norður-Írum.
Úr sigurleik Íslands á Norður-Írum. Fréttablaðið/Anton

Nýr styrkleikalisti FIFA var birtur í morgun og er skemmst frá því að segja að Ísland hoppaði upp um 37 sæti á listanum.

Ísland fer úr 117. sæti í það 80. eftir góðan árangur í undanförnum leikjum. Liðið gerði jafntefli við Kanada og Spán og vann svo Norður-Íra. Síðastnefndu tveir leikirnir voru í undankeppni EM 2008.

Íslenska landsliðið hefur ekki verið ofar á listanum í þrjú ár, eða síðan í september árið 2004. Hæst hefur liðið komist í 37. sæti en það var í september árið 1994.

Ítalir skjótast aftur upp í efsta sæti listans en Brasilía fer niður í það þriðja. Argentína er sem fyrr í öðru sæti listans.

Spánverjar færast upp um eitt sæti, í það sjöunda. Svíar eru í 20. sæti og detta niður um eitt en Danir færast upp um tvö sæti, í það 28.

Norður-Írar detta niður um níu sæti og sitja nú í 36. sæti. Lettland er í 94. sæti og hoppar upp um 16 sæti en Liechtenstein situr í 142. sæti.

Aldrei áður hefur íslenska landsliðið hoppað upp um jafn mörg sæti í einum rykk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×