Fótbolti

Þýskaland og England í fjórðungsúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jill Scott (lengst til vinstri) fagnar marki sínu gegn Argentínu í dag ásamt liðsfélögum sínum í enska landsliðinu.
Jill Scott (lengst til vinstri) fagnar marki sínu gegn Argentínu í dag ásamt liðsfélögum sínum í enska landsliðinu. Nordic Photos / AFP

Þýskaland og England tryggðu sér í dag sæti í fjórðungsúrslitum á HM í knattspyrnu kvenna sem fer fram í Kína. England rúllaði yfir Argentínu á sama tíma og Þýskaland vann Japan.

Þær ensku báru 6-1 sigur úr býtum á móti Argentínu sem sá aldrei til sólar á mótinu. Argentína skoraði einungis eitt mark en fékk átján á sig.

Japanska landsliðið situr eftir með sárt ennið eftir 2-0 tap fyrir Þýskalandi.

Þýskaland fékk sjö stig í A-riðli, England fékk fimm, Japan fjögur og Argentína ekkert.

Þýskaland og England mæta efstu tveimur liðunum í B-riðli í fjórðungsúrslitum. Þar fer lokaumferðin fram á morgun en sú staða gæti komið upp að öll fjögur liðin í riðlinum, Norður-Kórea, Bandaríkin, Nígería og Svíþjóð, gætu endað með fjögur stig.

Það er þó líklegra að Bandaríkin komist áfram, ásamt annað hvort Svíþjóð eða Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×