Innlent

Flug til Stokkhólms fellt niður vegna deilu flugmanna og Icelandair

Flugmenn hafa boðað hertar aðgerðir.
Flugmenn hafa boðað hertar aðgerðir. MYND/365

Fella þurfti niður flug á vegum Icelandair til Stokkhólms í morgun vegna kjaradeilu flugmanna við félagið. Yfir 100 manns voru bókuð í flugið samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins. Varaformaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna segir að flugmenn séu eingöngu að fylgja eftir ákvæðum kjarasamnings og harmar allar raskanir á flugi.

Viðræðum forráðamanna Icelandair við flugmenn vegna forgangsréttarákvæðis í kjarasamningum flugmanna sigldu í strand í lok síðustu viku. Í kjölfarið beindi Félag íslenskra atvinnuflugmanna þeim tilmælum til félagsmanna að þeir muni í einu og öllu fara eftir gildandi kjarasamningum frá og með deginum í dag. Meðal annars hvað varðar frídaga og að öllum beiðnum frá Icelandair um frávik skuli vísað til stjórnar stéttarfélagsins.

Tryggvi Þór Hafstein, varaformaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, sagði í samtali við Vísi að honum þætti einkennilegt að verið væri að kalla menn til vinnu úr sumar- eða vaktafríi vegna manneklu. Á sama tíma væri verið að segja upp flugmönnum hjá félaginu. „Við hörmum að sjálfsögðu allar raskanir á áætlunum félagsins. Við erum eingöngu að fylgja eftir ákvæðum kjarasamnings."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×