Innlent

Ósanngjörn, óþolandi og ómálefnaleg gagnrýni

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. MYND/365

Gagnrýni Afls, starfsgreinasambands, á þann frest sem Vinnumálastofnun veitti verktökum á Kárahnjúkasvæðinu í gær er ósanngjörn, ómálefnaleg og óþolandi að mati forstjóra stofnunarinnar. Hann segir gagnrýni starfgreinasambandsins fara langt út fyrir öll mörk og varla sé mark takandi á henni.

„Þetta er ósanngjörn, ómálefnaleg og óþolandi gagnrýni," sagði Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, í samtali við Vísi. „Ekki síst gagnvart starsfmönnum stofnunarinnar sem eru að vinna verk sín í góðri trú."

Í yfirlýsingu sem stjórn Afls, starfsgreinasambands, gaf frá sér í gær er Vinnumálstofnun harðlega gagnrýnd fyrir að gefa verktakafyrirtækjum á Kárahnjúkasvæðinu frest til að óskráðir starfsmenn geti haldið áfram vinnu þar. Ennfremur segir í yfirlýsingunni að stjórn félagsins geti ekki lengur treyst Vinnumálstofnun til að verja rétt launafólks í landinu.

Gissur segir að full samvinna hafi verið við trúnaðarmenn stéttarfélaga á Kárahnjúkasvæðinu þegar ákveðið var að gera samninga við verktakafyrirtækin. Þá segir hann ljóst að samningarnir tryggi að öll réttindi erlendra starfsmanna á svæðinu verði virt. „Með þessum aðgerðum í gær drögum við fram upplýsingar sem stéttarfélögin hafa ekki fengið hingað til. Þau fá síðan þessar upplýsingar í hendur til að hægt sé að tryggja réttindi starsfmanna. Verktakafyrirtækið Arnarfell hefur ábyrgst að við allar kröfur verði staðið. Þannig er tryggt að þessir menn fá öll sín réttindi. Að okkar mati dugði þessi þrýstingur til að fá lausn í málinu. Að mínu mati fer þessi yfirlýsing Afls því langt yfir strikið og varla hægt að taka mark á henni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×