Innlent

Sýknaðir af ákæru um íkveikju á Stokkseyri

MYND/Heiða

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í dag tvo menn af ákæru um að hafa lagt á ráðin um að kveikja í verslunarhúsi á Stokkseyri. Segir dómurinn að þrátt fyrir að frásögn mannanna sé með ólíkindablæ sé ekki hægt að útiloka að aðrir hafi verið þar að verki.

Forsaga málsins var sú að maður hafði samband við lögreglu í byrjun janúar 2004 og sagði að til stæði að kveikja í húsinu. Sagði hann að eigandi hússins, annar ákærðu, gæti ekki staðið í skilum með afborganir vegna hússins og að hann hefði áform um að svíkja fé út úr tryggingum. Sagði maðurinn að hinn sem ákærður var hefði ætlað að kveikja í húsinu og að það væri búið að koma fyrir eldfimu efni í húsinu. Lögregla kannaði húsið og í ljós kom að það var opið hverjum sem er en innandyra fannst mikið af pappakössum sem virtust innihalda plast, steinull og tréfjalir, og í stórum sal fannst álbrúsi með nokkru magni af olíu.

Lögregla hleraði síma mannnanna

Lögregla fékk heimild til að hlera símtöl mannanna og út frá því var lögregla á vakt við húsið í lok janúar þegar annar mannanna kom að í bíl og fór inn í húsið. Hann var handtekinn eftir að hann kom út og töldu lögreglumenn sig finna olíulykt af honum. Fundu þeir þá reykjarlykt og hlupu inn í húsið þar sem kveikt var á tveimur kertum og olía á kössum og gólfi. Slökktu lögreglumenn á kertunum.

Fram kom fyrir dómi að þegar símtöl mannanna hefðu verið hleruð hefði annar mannanna sagst vera í djúpum skít vegna þess að bankarnir ættu veð í húsinu. Enn fremur væri hann í vanskilum. Þá kom fram í öðru símtali mannanna að annar þeirra, sá sem keypt hafði húsið, hefði sagt að hann reiknaði með „að þetta skeði í kvöld". Þá hefði hinn sagt á móti: „ég launa þér þetta rosalega vel".

Lögregla kannaði ekki aðstæður í húsinu

Mennirnir könnuðust við að hafa átt þessi samtöl í síma en sögðu þau alls ekki hafa tengst áformum um að kveikja í húsinu. Samtalið hefði snúist um vanskil annars við hinn vegna kaupa hins fyrrnefnda á húsnæðinu. Sagðist sá sem gripinn var hafa séð kertin logandi í húsinu og ummerki um að einhver hefði verið þar áður. Hann hefði ekki slökkt á kertunum þar sem hann hefði ekki talið hættu á eldsvoða enda væri að slokkna á þeim.

Dómurinn komst að því að framburður mannanna hefði verið með nokkrum ólíkindablæ, sérstaklega frásögn annars þeirra að hann hefði ekki talið þörf á að slökkva á kertunum. Þá bendi samtöl mannanna óneitanlega til þess að þeir hafi verið að ráðgera íkveikju. Hins vegar hafi lögreglan ekki kannað aðstæður í húsnæðinu áður en hún fór að vakta húsið umrætt kvöld en ljóst væri að unglingar hefðu stundum sótt í húsið. Taldi dómurinn því ekki loku fyrir það skotið að aðrir en ákærðu ættu hlut að máli. Gegn eindreginni neitun mannanna væri því ekki komin fram lögfull sönnun fyrir sekt ákærðu í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×