Innlent

Samson fjárfestir fyrir milljarða í miðborginni

Heimir Már Pétursson skrifar

Samson Properties hefur fjárfest í húseignum á Laugavegi og nágrenni hans fyrir um tíu milljarða króna. Félagið hyggur á mikla uppbyggingu í miðborginni.

Samson Properties sérhæfir sig í rekstri fasteigna og á fasteignir fyrir rúma eitt hundrað milljarða í ellefu ríkjum. Félagið er t.d. stærsti erlendi fasteignafjárfestirinn í Finnlandi. Eignir félagsins á Íslandi eru rétt innan við tíu prósent af eignum þess.

Fyrir ekki mörgum árum höfðu menn áhyggjur af framtíð Laugavegarins og töluðu jafnvel um dauða hans. En nú sækjast stórir fjárfestar eftir fasteignum þar, eins og Samson Properties, sem fjárfest hefur við laugaveginn fyrir um 10 milljarða króna.

Samson á nú stóran hluta fasteigna á reit milli Laugavegar og Lindargötu sem markast af Vatnsstíg og Frakkastíg annars vegar og svo á reit milli Laugavegar og Hverfisgötu sem markast af Vitastíg og Baronsstíg ásamt nokkrum húseignum neðan Hverfisgötu.

Sveinn Björnsson framkvæmdastjóri Samson Properties segir að félagið hafi metnað til að byggja upp í miðborginni með hliðsjón af og með virðingu fyrir miðborginni.

Meðal húsa á þessum reitum er húsnæði skemmti- og veitingastaðanna Vegas og L.A kaffis og kvikmyndahúsið Regnboginn ásamt fjölda íbúðarhúsa, verslana og annarrar þjónustu. Sveinn segir Samson vilja stuðla að uppbyggingu í miðborginni og þá sé horft til allra þátta, íbúðarhúsnæðis, verslunar og þjónustu.

Sveinn segir að þessu fylgi væntanlega að hús verði rifin og ný byggð, en það verði gert með virðingu fyrir sögunni.

Sveinn vill ekki tímasetja hvenær félagið leggur fram tillögur að breyttu skipulagi. Hins vegar sé Samson Properties búið að leggja mikla fjármuni í verkefnið og því augljóst að því fyrr sem tillögur komi fram, því betra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×