Innlent

Vinir Kolaportsins mótmæla breytingum

MYND/Teitur

Samtökin Vinir Kolaportsins hvetja alla til þess að mæta á markaðinn víðfræga um helgina og skrá nafn sitt á undirskriftalista til þess að mótmæla fyrirhuguðum breytingum á Tryggvagötu 19. Tollstjóraembættið hefur farið fram á að fá að gera bílageymslu á annari og þriðju hæð hússins. Verði leyfið veitt mun það raska starfsemi Kolaportsins verulega.

Hugmyndin bíður nú afgreiðslu hjá Skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar og frestur til að skila inn athugasemdum rennur út á mánudag. „Bygging bílageymslunnar er fyrirhuguð inni í rými Kolaportsins," segir í tilkynningu frá Kolaportinu. „Sú bygging mun hafa það í för með sér að lofthæð Kolaportsins lækkar um helming, gólfflötur þess minnkar um 20 prósent og inngöngum fækkar. Þá er ljóst að Kolaportið verður ekki með rekstur í núverandi húsnæði sínu á meðan á framkvæmdum stendur."

Gunnar Hákonarson, framkvæmdastjóri Kolaportsins segir að ef bráðabirgðarhúsnæði finnst ekki, verði Kolaportinu lokað í allt að eitt og hálft ár. Segja þurfi upp öllu starfsfólki og óvíst sé hvort reksturinn snúi aftur. Gunnar segir að húsnæðið sé í eigu fjármálaráðuneytisins. „Við leigjum af ráðuneytinu og endurleigjum svo til þeirra sem hér eru með bása," segir Gunnar.

Hann hvetur alla sem vettlingi geta valdið til þess að koma í Kolaportið, skrifa undir listann og mótmæla með því fyrirhuguðum framkvæmdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×