Innlent

Starfshópur undirbýr hlutafélagavæðingu OR

MYND/Róbert
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að mynda sérstakan starfshóp um hlutafélagavæðingu Orkuveitu Reykjavíkur. Eins og kunnugt er samþykkti stjórn Orkuveitunnar á mánudag að beina því til eigenda, Reykjavíkurborgar, Borgarbyggðar og Akraneskaupstaðar, að breyta rekstrarfyrirkomulaginu í hlutafélagaform úr sameignarformi.

Að sögn Björns Inga Hrafnssonar, formanns starfshópsins, tekur hann þegar til starfa. Hópurinn eigi að gera tillögu um hvernig best sé að haga undirbúningi að hlutafélagavæðingu. Í starfshópnum eiga sæti auk Björns Inga, borgarlögmaður, forstjóri Orkuveitunnar, fulltrúar Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar auk fulltrúa flokkanna í borgarstjórn. Björn Ingi vonast til þess að starfshópurinn ljúki störfum á tveimur til þremur vikum en segir að vandað verði til verka.

Ólíklegt að kosið verði um hlutafélagavæðingu

Á fundi borgarráðs í morgun lagði Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi Vinstri - grænna, það til að starfshópurinn undirbyggi íbúakosningu um breytinguna á rekstrarformi Orkuveitunnar. Þeirri tillögu var vísað til starfshópsins. Aðspurður sagði Björn Ingi að tillagan yrði tekin fyrir hjá starfhópnum en hann ætti síður von á að hún yrði að veruleika. Fyrirtæki í eigu borgarinnar hefðu áður verið hlutafélagavædd, til að mynda Félagsbústaðir í tíð R-listans, án þess að kosið hefði verið um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×