Innlent

Rússneskir "birnir" flugu milli Íslands og Færeyja

Þórir Guðmundsson skrifar

Átta rússneskar herflugvélar flugu inn í íslenska flugstjórnarsvæðið án þess að tilkynna um sig snemma í morgun. Norski herinn varð var við flug Rússanna frá Kolaskaga.

Einhverjar vélanna, að minnsta kosti, voru hinir svokölluðu Birnir, eða Tupolev 95, sem voru svo algengir yfir hafsvæðinu milli Íslands og Noregs á kalda stríðs tímanum.

Flugmálayfirvöld hér á landi segja að átta óþekktar flugvélar hafi komið úr norðaustri að Íslandi og flogið milli Íslands og Færeyja, farið suður fyrir og svo snúið við og flogið sömu leið til baka. Þetta gerðist á tímabilinu milli klukkan sex og sjö í morgun og vélarnar voru í um tvær klukkustundir í sjónmáli íslenskra ratsjárstöðva.

Engin tilkynning kom frá þeim til Flugmálastjórnar þó að þær færu inn á íslenska flugstjórnarsvæðið. Breskar herþotur voru sendar til móts við Rússana þegar þeir nálguðust Bretland.

Norðmenn sendu tvær F-16 orrustuflugvélar til móts við Rússana, bæði þegar vélarnar komu fyrst að Noregi frá Kolaskaga og þegar þær komu til baka. Talsmaður norska hersins segir samtali við Stöð tvö að rússnesku vélarnar hafi farið hefðbundna leið og haldið sig utan lofthelgi Noregs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×