Innlent

Verð á grásleppuhrognum rýkur upp

Verð á grásleppuhrognum hefur rokið upp að undanförnu vegna lélegrar vertíðar við Grænland og Nýfundnaland. Þá var lítið veitt hér við land vegna áhugaleysis út af verðlagningunni.

Aflinn við Nýfundnaland var aðeins um þriðjungur afla á meðal vertíð, eða 3.500 tunnur, að því er fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda. Við upphaf vertíðar voru tæplega 34 þúsund krónur í boði fyrir tunnuna en nú er verðið komið upp fyrir 70 þúsund enda er nú skortur á grásleppuhrognum á heimsmarkaði.

Samtök grásleppuveiðimanna við Norður-Atlantshaf hafa um árabil haft með sér samstarf um að takmarka framboðið til að verð fari ekki niður úr öllu valdi en nú tók náttúran til sinna ráða með ísreki á mörgum veiðisvæðum við Grænland og Nýfundnaland.

Gera má ráð fyrir að fleiri smábátaeigendur hér á landi muni veiða grásleppu næsta vor en gerðu það í ár þar sem mörgum þótti ekki svara kostnaði að stunda veiðarnar miðað við verðið í vor. Áhugi á veiðunum mun sjaldan eða aldrei hafa verið minni en í vor en nú er útlitið annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×