Fótbolti

Ráðist á dómara í utandeildinni

Ráðist var á dómara eftir leik í utandeildinni í knattspyrnu í gær og hann sparkaður niður þannig að hann braut þrjú rifbein. Dómarinn hyggst líklega kæra málið til lögreglu.

Atvikið átti sér stað eftir leik Dinamo Gym 80 og Vatnalilja. Dómarinn hafði skömmu fyrir leiksloks rekið markmann Dinamo af velli fyrir kjaftbrúk og líkaði leikmanninum það illa. Þegar leikurinn hafði verið flautaður af gekk markmaðurinn að dómaranum og sló af honum húfuna. Hann lét sér það ekki nægja heldur sparkaði fótunum undan dómaranum þannig að hann féll í jörðina og rifbrotnaði sem fyrr segir.

Dómarinn sagði í samtali við Vísi að hann hefði í framhaldinu farið upp á slysadeild þar sem hann dvaldi vegna rannsókna fram yfir miðnætti. Hann hafi orðið sér úti um áverkavottorð og muni að líkindum kæra málið. „Það er ekki annað hægt," segir hann.

Dómarinn, sem er á sextugsaldri, segist aldrei á dómaraferli sínum lent í viðlíka atviki. „Ég hef dæmt fleiri hundruð leiki en þetta er alveg ný upplifun. Þótt menn hafi oft orðið æstir í hita leiksins hefur það allt verið innan eðlilegra marka," segir dómarin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×