Innlent

Vestmannaeyjagöng talin kosta 50 til 80 milljarða

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. MYND/ÓPF

Áhætta við gerð jarðganga til Vestamannaeyja er mikil og álitamál hvort slíkt sé réttlætanlegt miðað við jarðfræðilega virkni svæðisins. Þetta kemur fram í skýrslu sem Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. vann fyrir Vegagerðina en skýrsluna á enn eftir að opinbera. Talið er að Vestmannaeyjagöng muni kosta 50 til 80 milljarða króna.

Í skýrslunni kemur fram að tæknilega mögulegt sé að gera göng til Vestmannaeyja og að kostnaðurinn verði líklega á bilinu 50 til 80 milljarðar króna. Áhættan er hins vegar talin mikil. Er meðal annars bent á það í skýrslunni að það sé álitamál hvort nokkurn tímann geti verið réttlætanlegt að grafa og reka þetta löng jarðgöng djúpt undir sjó á jafn jarfræðilegu virku svæði og Vestmannaeyjasvæðið er.

Skýrsluhöfundar segja að miðað við 18 kílómetra löng göng sem yrðu steypufóðruð fyrstu þrjá kílómetrana frá Vestmannaeyjum er kostnaður talinn verða 52 milljarðar króna. Verði hins vegar öll göngin steypufóðruð er kostnaður áætlaður 80 milljarðar króna. Fram kemur í skýrslunni að um þriðjung þessa kostnaðar er vegna óvissu, kostnaðar við hönnun og eftirlit og kostnaður verkkaupa af vöxtum á byggingatíma, rannsókna og fleiri.

Þá telja skýrsluhöfundar að nauðsynlegt sé að gera frekari jarðfræðilegar og jarðtæknilegar rannsóknir sem miði að því að draga úr óvissu við verkefnið. Talið er að slíkar rannsóknir muni kosta 115 til 275 milljónir króna.

Fjallað verður um skýrsluna á fundi ríkisstjórnarinnar næstkomandi föstudag en í framhaldi af því verður hún gerð opinber.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×