Íslenski boltinn

FH-ingar á sigurbraut á ný

Mynd/Vilhelm

Íslandsmeistarar FH komust aftur á sigurbraut í Landsbankadeildinni kvöld þegar þeir lögðu Víkinga 4-1 á heimavelli sínum í Kaplakrika. Þá unnu Framarar annan sigur sinn í deildinni í sumar þegar þeir báru sigurorð af Breiðablik 1-0 á Laugardalsvellinum.

Sigur FH-inga á Víkingum var aldrei í hættu í kvöld eftir að liðið náði 3-0 forystu á rúmum hálftíma í fyrri hálfleik. Matthías Guðmundsson (fimm mörk í sumar), Matthías Vilhjálmsson og Guðmundur Sævarsson skoruðu þrjú fyrstu mörk FH-inga í leiknum áður en Arnar Sigurgeirsson náði að minnka muninn fyrir Víking skömmu fyrir leikhlé. Það var svo Atli Guðnason sem tryggði öruggan sigur FH með marki í blálokin.

Framarar unnu dýrmætan sigur á Blikum í Laugardalnum þar sem Jónas Grani Garðarsson skoraði sigurmark liðsins um miðbik síðari hálfleiksins. Framarar fengu reyndar vítaspyrnu í fyrri hálfleik en vítabaninn Casper Jacobsen varði vel frá Igor Pesic.

FH er sem fyrr í efsta sæti deildarinnar og hefur hlotið 22 stig í 9 leikjum. Keflavík hefur 17 stig úr 8 leikjum og Valur 15 stig úr 8 leikjum. Breiðablik er í 10. sæti með 10 stig, Fram í 8. sæti með 8 stig og Víkingur hefur sömuleiðis 8 stig í 9. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×