Erlent

Fjórir í haldi í Glasgow

Fjórir menn eru í haldi lögreglu í Skotlandi eftir að logandi jeppabifreið var ekið inn í aðal flugstöðina í Glasgow í gær. Tveir þeirra handteknu voru í bílnum sem ekið var á flugstöðina og liggur annar illa brunninn á sjúkrahúsi. Hinir tveir voru handteknir í nótt. Í morgun var svo gerð ítarleg leit í nokkrum húsum í Glasgow. Lögregla segir um hryðjuverk að ræða og atburð gærdagsins tengjast bílsprengjum sem fundust í miðborg Lundúna í fyrradag. Flugvöllurinn í Glasgow var opnaður aftur fyrir flugumferð á sjöunda tímanum í morgun og fór vél Icelandair á leið þangað í loftið samkvæmt áætlun. Öryggisviðbúnaður er nú á hæsta stigi á Bretlandseyjum sem gefur til kynna að bresk yfirvöld telji hryðjuverkaárás yfirvofandi. Í viðtali við BBC í morgun sagði Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, að Bretar myndu ekki leyfa liðsmönnum al-Kaída að grafa undan lífsháttum sínum. Hann sagði ljóst að hér hefði verið að verki fólk sem tengdist hryðjuverkasamtökunum alræmdu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×