Innlent

Á annan tug tilkynninga vegna vanrækslu og slæmrar meðferðar á dýrum

Á annan tug tilkynninga berast Bændasamtökunum á ári hverju vegna verulegrar vanrækslu á húsdýrum hér á landi. Dæmi eru um að dýrin séu vannærð svo dögum skipti og séu hýst í lélegum og illa þrifnum húsum. Flestar tilkynningar berast vegna vanrækslu á hrossum og sauðfé.

Fréttir af hundinum Lúkas hafa vakið hörð viðbrögð fólks. Grunur leikur á að hópur unglingspilta hafi rænt hundinum og murkað úr honum lífið og er málið í rannsókn hjá lögreglu. Í gær var Lúkasar minnst og kertum fleytt í Reykjavík og á Akureyri. Hópurinn vildi með athöfnunum skora á stjórnvöld að koma í veg fyrir að ofbeldi gegn dýrum viðgengist. Samkvæmt annarri grein laga um dýravernd. er skylt að fara vel með öll dýr. Óheimilt er að hrekkja dýr eða meiða og Forðast skal að ofbjóða kröftum þeirra og þoli.

Ólafur Dýrmundsson í búfjáreftirlitinu hjá bændasamtökunum segir á annan tug tilkynninga berast eftirlitinu vegna ýmis konar vanrækslu eða slæmrar meðferðar á dýrum. Flestar tilkynningar berist um hross og sauðfé en þar á eftir komi hundar og kettir. 

Ólafur segir að viðurlögin við slíkri meðferð séu sektir og dæmi séu um að búfjáreigendur og aðrir hafi hlotið dóma vegna illrar meðferðar á dýrum. Hann segir sorglegt að oft sé um sömu einstaklingana að ræða ár eftir ár sem vanræki dýrin.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×