Erlent

Mikil endurnýjun í stjórn Browns

Gordon Brown, nýr forsætisráðherra Bretlands, skipaði í dag Jacqui Smith innanríkisráðherra í ríkisstjórn sinni og David Miliband, fráfarandi umhverfisráðherra, sem utanríkisráðherra landsins. Smith er fyrsta konan sem gegnir embætti innanríkisráðherra en mikil endurnýjun er í stjórn Browns.

Þá snýr Jack Straw, fyrrverandi utanríkisráðherra, aftur í ríkisstjórn sem dómsmálaráðherra en Margaret Beckett hverfur úr ríkisstjórn eftir að hafa setið undanfarin misseri sem utanríkisráðherra. Sömu leið fer John Reid sem var innanríkisráðherra í stjórn Tonys Blair sem lét af embætti forsætisráðherra í gær.

Alistair Darling tekur við embætti fjármálaráðherra af Brown og þá verður Alan Johnson heilbrigðisráðherra Bretlands. Peter Hain verður viðskipta- og iðnaðaráðherra landsins og einn af nánustu samstarfsmönnum Browns, Ed Balls, verður ráðherra skóla- og barnamála.

Þá verður Ruth Kelly samgönguráðherra og Hillary Benn tekur við umhverfisráðuneytinu af David Miliband. Þá kemur fram á fréttavef BBC að Des Browne verði áfram varnarmálaráðherra en ekki liggur fyrir hver verður ráðherra í málefnum Norður-Írlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×