Fótbolti

Enn hefur Zidane ekki samband við Materazzi

Zidane og Materazzi hafa enn ekki rætt málin eftir skandalinn á HM
Zidane og Materazzi hafa enn ekki rætt málin eftir skandalinn á HM AFP

Ítalski landsliðsmaðurinn Marco Materazzi segist enn vera að bíða eftir því að Zinedine Zidane biðji sig afsökunar á að hafa skallað sig í úrslitaleik HM í Þýskalandi síðasta sumar. Hann er þó bjartsýnn á að Frakkinn geri það einn daginn.

"Ég held að hann sé ekki tilbúinn til að biðjast afsökunar eins og staðan er í dag," sagði Materazzi í samtali við ítalska sjónvarpsstöð. "Hann á eflaust eftir að gera það einn daginn, en ég er búinn að biðja bæði systur hans og börnin í heiminum afsökunar á mínum þætti í málinu. UNICEF reyndi að fá hann til að hitta mig og klára málið en hann vildi það ekki. Ég vona að hann fáist til að hitta mig einn daginn - því annars lítur þetta út eins og það hafi verið ég sem skallaði hann en ekki öfugt."

Materazzi segist hafa grun um það af hverju Zidane hafi enn ekki sett sig í samband. "Ég er heimsmeistari og því er þetta allt auðveldara fyrir mig. Það var hann sem tapaði í úrslitaleiknum. Það breytir því ekki að það eru mikilvægari hlutir til að hafa áhyggjur af en þetta. Það væri fínt ef við gætum klárað þetta mál frá - en ég á þrjú börn til að hugsa um og ég hef það fínt hvort sem hann hefur samband eða ekki," sagði Materazzi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×