Innlent

Guðmundur í Byrginu vill stofna Bjarg og Klett

Guðmundur Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður Byrgisins, hefur sótt um leyfi til að breyta sex sumarhúsalóðum sínum í tvö lögbýli. Lögbýlin hafa hlotið nöfnin Bjarg og Klettur. Mikils óróa gætir vegna þessa meðal sumarhúsaeigenda á svæðinu.

Lóðirnar sem um ræðir eru í landi Klausturhóla í Grímsnes- og Grafningshreppi og eru í eigu fyrirtækisins Úrím og Túmímm. Úrím og Túmmím var stofnað fyrir tveimur árum og er í eigu Guðmundar Jónssonar og Jóns Arnarrs Einarssonar sem áður var aðstoðarforstöðumaður Byrgisins. Samkvæmt heimildum fréttastofu keypti fyrirtækið lóðirnar fyrir tæpum tveimur árum og er eitt hús risið þar. Í því býr Guðmundur ásamt fjölskyldu sinni.

Í sunnlenska fréttablaðinu Glugganum birtist á dögunum auglýsing þar sem auglýst er eftir athugasemdum við breytingum á aðalskipulagi í uppsveitum Árnessýslu. Þar kemur fram að til standi að breyta umræddum lóðum í landbúnaðarsvæði og að á þeim rísi íbúðabyggð en ekki sumarhús. Í stað frístundalóða verði lóðunum því breytt í lögbýlin Bjarg og Klett. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur fyrirtækið Úrím og Túmmím sótt um það til Landbúnaðarráðuneytisins að á býlunum verði stunduð ylrækt en lögbýli eru bundin þeim kvöðum samkvæmt lögum að á þeim sé stundaður landbúnaður.

Hátt í 40 sumarhúsalóðir eru á þessum stað. Sumarhúsaeigendur í nágrenninu eru órólegir og segja málið allt hið einkennilegasta, fyrir það fyrsta þá sé ekkert heitt vatn á svæðinu og því ógerlegt að stunda þar ylrækt. Margir þeirra eru uggandi yfir því hvernig starfssemi Guðmundir hyggst reka á lögbýlunum Bjargi og Kletti.

Þristurinn, félag sumarhúsaeigenda á svæðinu hyggst funda næstkomandi laugardag til að ræða málin frekar og þá verður tekin ákvörðun um hvort tillögunum verði mótmælt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×