Fótbolti

Platini ráðalaus þegar kemur að óeirðum í knattspyrnu

Platini hefur áhyggjur af auknu ofbeldi í tengslum við knattspyrnuleiki
Platini hefur áhyggjur af auknu ofbeldi í tengslum við knattspyrnuleiki NordicPhotos/GettyImages

Michel Platini, nýkjörinn forseti evrópska knattspyrnusambandsins, segst ráðþrota þegar kemur að bulluskap og óeirðum sem verið hafa mjög áberandi í knattspyrnuheiminum á síðustu vikum. Hann segir málið að stórum hluta í höndum lögregluyfirvalda.

Lætin í knattspyrnunni hafa verið óvenju áberandi undanfarið og skemmst er að minnast harmleiksins á leik Catania og Palermo á Sikiley þann 2. febrúar, þegar lögreglumaður lét lífið í átökum við óeirðaseggi.

Þjálfari Sevilla slasaðist fyrir skömmu þegar flösku var kastað í höfuð hans í bikarleik á Spáni og þá hafa komið upp nokkur leiðindaatvik í franska boltanum - þar sem seinka þurfti leikjum og lögregla notaði táragas til að skakka leikinn.

Platini segir að óeirðir hafi alltaf fundist í knattspyrnunni, en segir það erfitt mál viðureignar, því óljóst sé hver beri ábyrgð á að eiga við vandamálið. "Mér fannst andrúmsloftið í knattspyrnunni vera orðið mjög jákvætt fyrir 20 árum, en svo virðist ekki vera lengur. Allir bera einhverja ábyrgð á þessu, en svo virðist sem fótboltinn í dag sé orðinn mikilvægari en lífið sjálft. Hvernig á maður að eiga við það? Ég veit það ekki.

Það hefur alltaf átt sér stað ofbeldi í einhverjum mæli í fótboltanum, en af hverju er það að aukast núna? Og hver á að eiga við það? Alþjóða knattspyrnusambandið og það evrópska eiga bara við þessa hluti þegar um er að ræða keppnir á þeirra vegum. Það sem gerist úti á götunum, hlýtur hinsvegar að teljast mál lögregluyfirvalda - hvernig eiga knattspyrnufélög að ráða við það sem þar gerist?" sagði Platini í samtali við L´Equipe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×