Innlent

Krefst betri þjónstu fyrir Byrgis- og Breiðavíkurfólk

Geðhjálp krefst þess að stjórnvöld veiti því fólki sem dvaldi í Byrginu og í Breiðuvík aukna þjónustu og gagnrýnir harðlega hvernig staðið hefur verið að því að koma þeim til aðstoðar.

Til Geðhjálpar hefur leitað fólk sem segjast hafa mátt sæta harðræði, ofbeldi, og/eða kynferðislegri misnotkun á meðan á stofnanavistun þeirra á ábyrgð hins opinbera stóð. Er þá sérstaklega átt við Byrgið í Grímsnesi og drengjaheimilið í Breiðuvík.

Í bréfi frá stjórn félagsins sem borist hefur ríkisstjórninni er minnt á sérstök fyrirheit forsætisráðherra og félagsmálaráðherra sem gefin voru á fundi með blaðamönnum þann 12. febrúar um að komið yrði á fót sérstöku teymi fagfólks á geðsviði Landspítalans. Nú hafi komið í ljós að þessi þjónusta hafi aðeins nýst hluta þessa hóps.

Þá gerir Geðhjálp alvarlegar athugasemdir við framkvæmdina og telur að samhæfa hefði þurft mun betur aðgerðir af hálfu heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis frá byrjun. Einnig að rétt hefði verið við þessar aðstæður að hið opinbera hefði frumkvæði að því að hafa milliliðalaust samband við fórnarlömb hins meinta ofbeldis í stað þess að beina fólki á geðsvið LSH við Hringbraut.

Geðhjálp minnir á að tveir ríkisstjórnarfundir voru haldnir þar sem þessi mál voru til umræðu og að íslenska ríkið skuldi því fólki sem þarna á í hlut, hvar sem það er á landinu, allan þann faglega stuðning sem best geti nýst og völ sé á.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×