Fótbolti

Rannsaka meint kynþáttahatur stuðningsmanna West Ham

Jermaine Defoe og Paul Konchesky takast á í leik West Ham og Tottenham á sunnudaginn var.
Jermaine Defoe og Paul Konchesky takast á í leik West Ham og Tottenham á sunnudaginn var. MYND/AP

Einmitt þegar vandræði enska úrvalsdeildarliðsins West Ham virðast ekki geta orðið meiri hefur enn eitt áfallið dunið yfir því breska lögreglan og enska úrvalsdeildin hafa hafið rannsókn á því hvort stuðningsmenn liðsins hafi gerst sekir um kynþáttafordóma á leik West Ham og Tottenham á sunnudag.

Eftir því sem breska blaðið Daily Mail segir birtust upptökur af því á Netinu þar sem um 30 stuðningsmenn West Ham syngja „Ég vildi heldur vera Pakistani en gyðingur,". Segir blaðið að söngnum hafi verið beint gegn Tottenham enda eigi liðið stóran hóp stuðningsmanna meðal gyðinga. Mun þetta ekki vera í fyrsta skiptið sem þessi söngur heyrist í viðureignum liðanna.

Myndir úr öryggismyndavél á vellinum hafa verið sendar til enska knattspyrnusambandsins sem svo sendi þær áfram til lögreglunnar sem rannsakar málið. Forráðamenn West Ham hafa fordæmt hegðun stuðningsmannanna og lofað að finna þá sem stóðu fyrir þessu. Félagið líði ekki kynþáttahatur.

West Ham er nú í neðsta sæti úrvalsdeildarinnar og horfir fram á erfiða baráttu fyrir lífi sínu í deildinni þá níu leiki sem eftir eru af tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×