Erlent

Reyna að finna Ungdomshuset nýjan stað

Styrktarsjóður Ungdomshuset hefur fjárráð til að kaupa nýtt hús fyrir þá starfsemi sem fram hefur farið á Jagtvej 69, í húsinu sem nú á samkvæmt heimildum Politiken að rífa. Þetta segir Knud Foldschack lögmaður styrktarsjóðsins. Lögmaðurinn áréttar hins vegar í samtali við Politiken að ungmennin sjálf hafi fyrirgert rétti sínum til að koma að þeirri ákvörðun hvar skuli kaupa nýtt hús, það sé sjóðsins og stjórnmálamanna að ákveða það. Hann segir að sjóðurinn sé hins vegar tilbúinn að láta unga fólkinu eftir að reka starfsemina eftir sem áður.

Óttast er að erfitt verði að finna starfseminni stað þar sem enginn vilji fá fólkið sem staðið hefur fyrir ofbeldisfullum mótmælum inn í sitt hverfi, það sé ungmennunum sjálfum að kenna að þannig sé komið fyrir. Þá segir Foldschack að ungmennin hafi gert stjórnmálamönnum erfitt fyrir að styðja við þá ákvörðun að nýtt hús verði fundið undir starfsemina. Foldschack segir styrktarsjóðinn ekki geta aðstoðað þá sem orðið hafa fyrir barðinu á eignaspjöllum og hermdarverkum mótmælenda.

Allt hefur verið með kyrrum kjörum í Kaupmannahöfn í dag en eftir sem áður er lögregla með hámarksviðbúnað, skyldi enn sjóða upp úr. Um 1000 manns mættu í sérstaka reiðhjóla-mótmælagöngu á Ráðhústorg í dag og hringdu allir reiðhjólabjöllum sínum samtímis til stuðnings við Ungdomshuset. Þeir mótmælendur sem höfðu sig helst í frammi ofbeldisfullar aðfararnætur föstudags og laugardags sitja flestir enn í gæsluvarðhaldi og bíða þess að lögregla gefi út ákærur á þá. Þá hefur fjölda erlendra mótmælenda verið vísað úr landi.

Faderhuset-trúfélagið, eigendur hússins við Jagtvej 69 tilkynna klukkan níu í fyrramálið ákvörðun sína um framtíð hússins en Politiken hefur fyrir því heimildir að ákveðið hafi verið að það skuli rifið. Í öllu falli hefur Faderhuset aflað allra tilskilinna leyfa frá skipulagsyfirvöldum til þess, þrátt fyrir að húsið sé það gamalt að það sé sjálfkrafa friðað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×