Innlent

Deilt um fjölda þungana á Byrginu

Í Fréttablaðinu í gær ritaði Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, grein um málefni Byrgisins en hann var læknir þess. Þar segir Ólafur að það sé reiðarslag hversu illa hafi farið við rekstur Byrgisins og leggur til nýjar lausnir við umönnun drykkjusjúklinga og utangarðsfólks. Mesta athygli vekja þó orð hans um að margar sögusagnir hafi orðið til um mál Byrgisins, meðal annars að tíu konur hafi orðið þungaðar eftir starfsmenn Byrgisins. Hann hafi aðeins vitað hugsanlega um eina konu og ráðstafanir hafi verið gerðar í því máli.

Þetta stangast á við fullyrðingar Péturs Haukssonar, geðlæknis sem árið 2001 reyndi að vekja athygli landlæknis á kynferðismisnotkun ungra kvenna sem dvöldust í Byrginu. Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2, sagðist Pétur standa við fullyrðingar sínar og að yfirvöld ættu að boða þessar konur á fund sinn og einblína á úrræði þeim til handa í stað þess að leggja áherslu á fjármálaóreiðu Byrgisins.

Þessar konur væru illa haldnar andlega og félagslega og þyrftu aðstoð.

Ólafur Ólafsson, vildi ekki tjá sig þegar fréttastofa leitaði til hans vegna greinar sinnar. Hann benti hins vegar á að hann sendi læknaskýrslu um málið til Landlæknisembættisins nú fyrir skemmstu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×