Fótbolti

Fær Milan að leika á San Siro í Meistardeildinni?

Frá San  Siro.
Frá San Siro. MYND/Nordic photos

Það ræðst í dag hvort AC Milan fær að leika heimaleik sinn í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu gegn skoska liðinu Celtic á Giuseppe Meazza vellinum í Mílanó en hann uppfyllir ekki kröfur ítalska knattspyrnusambandsins um öryggi áhorfenda. Hugsanlegt er að leikurinn verði fluttur á hlutlausan völl í Frakklandi eða Sviss.

Eins og fram hefur komið í fréttum var öllum leikjum í ítalska boltanum um síðustu helgi frestað eftir að lögreglumaður lét lífið í átökum tengdum leik sikileysku liðanna Catania og Palermo á föstudaginn var. Hefur ítalska ríkisstjórnin samþykkt nýjar reglur til þess að tryggja öryggi áhorfenda á völlunum sem þýðir að aðeins sex leikvangar liða í efstu deild á Ítalíu uppfylla öryggisskilyrði yfirvalda.

Þrátt fyrir þetta verða leikir í ítalska boltanum um helgina en reiknað er með að ítalska knattspyrnusambandið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem staðfest verður hvaða vellir uppfylli ekki skilyrði stjórnvalda um öryggi áhorfenda og verði því að fara fram fyrir luktum dyrum á meðan öryggismálum er komið í lag.

Sú hugmynd er ekki talin hugnast AC Milan, Celtic eða Knattspyrnusambandi Evrópu og því er hugsanlegt að leikur Milan og Celtic, sem fram á að fara 7. mars, verði í öðru landi, t.d. Frakklandi eða Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×