Fótbolti

Ætlar að veita stjörnum yfirhalningu

Jonathan Woodgate og David Villa berjast um boltann í leiknum í gær.
Jonathan Woodgate og David Villa berjast um boltann í leiknum í gær. MYND/AP

Steve McClaren, landsliðsþjálfari Englands, segist munu ræða við helstu stjörnur enska liðsins eftir að það lá fyrir Spánverjum í vináttulandsleik í Englandi í gær, 0-1. Þetta var fjórði leikurinn í röð þar sem liðinu tekst ekki að sigra en það hefur farið heldur illa af stað í undankeppni Evrópumóts landsliða.

McClaren viðurkenndi eftir leikinn í gær að sóknarleikur enska liðsins hefði brugðist en Peter Crouch og Shaun Wright-Phillips náðu sér ekki á strik í leiknum. Sömu sögu má segja af Frank Lampard.

„Mér finnst leikmennirnir ekki hafa brugðist mér. Þeir höfðu rétta viðhorfið og lögðu sig fram en frammistaðan í sókninni var ekki góð. Við áttum ekki góðar sendingar fyrir markið og tókst ekki að ljúka sóknunum vel," sagði McClaren eftir leikinn. McClaren benti enn fremur á að liðið hefði leikið án lykilmanna eins og Owen Hargreaves, Wayne Rooney og John Terry en þær gætu allir unnið leiki upp á sitt einsdæmi.

Ljóst er að verkefni McClarens eru ærin en liðið mætir Ísrael og Andorra í undankeppni EM 2008 en báða leiki verður enska liðið að vinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×