Fótbolti

Þjálfari Nígeríu reiður

Samherjarnir John Obi Mikel og Michael Essien frá Chelsea öttu kappi í gær
Samherjarnir John Obi Mikel og Michael Essien frá Chelsea öttu kappi í gær NordicPhotos/GettyImages

Segja má að gærkvöldið hafi ekki verið kvöld Austin Eguavoen, þjálfara Nígeríu. Lið hans steinlá 4-1 fyrir Gana í æfingaleik á Englandi og tapaði þar með fyrir Gana í fyrsta skipti í 15 ár. Tveir leikmanna nígeríska liðsins sem leika á Englandi voru svo heldur betur í eldlínunni.

Framherjinn Obafemi Martins hjá Newcastle var valinn í lið Nígeríu fyrir tveimur vikum og gaf fullan kost á sér í leikinn - en hann var hvergi sjáanlegur þegar liðið mætt til leiks í gærkvöld og kunni þjáfari liðsins honum litlar þakkir fyrir hegðan sína.

Þá vakti mikla athygli að hinn ungi John Obi Mikel hjá Chelsea spilaði allar 90 mínúturnar fyrir Nígeríu í gær, en Jose Mourinho hafði áður lýst því yfir að drengurinn væri meiddur á læri og yrði frá keppni í amk tvær vikur.

"Hvað Obafemi Martins varðar mun ég fara með mál hans í valdamestu menn innan knattspyrnuhreifingarinnar, því svona framkoma er til háborinnar skammar. Í máli Mikel verð ég að segja að ég skil ekkert í Jose Mourinho að segja að hann sé meiddur, því hann spilaði allan leikinn og kenndi sér einskis meins. Ég er hræddur um að Mourinho hafi ekki verið að segja mér allan sannleikann," sagði Eguavoen hundfúll eftir leikinn.

Mörk frá Laryea Kingson, Sulley Muntari, Junior Agogo og varamanninum Asamoah Frimpong tryggðu Ganamönnum þægilegan sigur á liði Claude Le Roy og ærðust stuðningsmenn Ganaliðsins á pöllunum og ruddust sumir hverjir inn á völlinn eftir annað og þriðja markið á Griffin Park. Taiwo Taye minnkaði muninn fyrir Nígeríu úr vítaspyrnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×